Sveinn Reynir Einarsson
Veiðistjóri

14.janúar 1917 – 2.nóvember 1984

 

Sveinn Einarsson fæddist 14. janúar 1917 í Miðdal í Mosfellssveit en lést 2. nóvember 1984. Sveinn varð fyrsti veiðistjóri  á Íslandi árið 1957 og gegndi því embætti í 26 ár.

Sveinn ólst upp í Miðdal við sterka náttúrukennd og veiðar eins og bræður hans. Hann lærði leirkerasmíði í Þýskalandi árin 1936-1938. Að námi loknu var hann í samstarfi við Guðmund bróður sinn í Listvinahúsinu á Skólavörðuholti til ársins 1953. Árin 1954 til 1957 stundaði Sveinn meðal annars grenjaleit á vorin og sjó á veturna. Sveinn var skipaður veiðistjóri 1957 og settur 1. janúar 1958. Hann var sá fyrsti er gegndi því starfi, enda kunnáttu- og áhugamaður um veiðar og öllu þeim tengdu.   

Sveinn hafði þann háttinn á, er að veiðistjórnun kom, að vinna með þeim veiðimönnum sem stunduðu refa- og minkaveiðar á þessum tíma. Má þar nefna Einar Guðlaugsson á Blönduósi (frá Þverá), Jónas og Bjarna Bjarnasyni, Guðbjörn Guðmundsson, Sigurð Ásgeirsson og fleiri.

Sveinn tileinkaði sér að nota hunda, sérstaklega til minkaveiða. Hann starfaði með veiðimönnum og þekkt er samstarf hans með hinum danska Carl Anton Carlsen minkabana sem var fyrstur til að stunda skipulagðar minkaveiðar hérlendis  ásamt ræktun og þjálfun veiðihunda.  Veiðistjóraembættið studdi og tók síðan við þeim rekstri.

Ljóst er að frumkvæði þessara manna var einstakt og betur væri fyrir okkur komið, veiðilega séð, ef framhald hefði orðið á þessum veiðiskap er þeir stunduðu.

Sveinn var, ásamt Einari á Blönduósi og fleirum, frumkvöðull í því að setja sjónauka á haglabyssur til refaveiða. Kom það sér vel við æti að vetri til en um næturveiði var að ræða. Þessi veiðitækni var fyrst kynnt í Bandaríkjunum á sama tíma og ljóst er að þeir voru mjög framarlega í að nýta sér veiðitækni síns tíma.

Sveinn átti frumkvæði að því að veita heimild til ráðinna minkaveiðimanna til að flytja inn og nota skammbyssur fyrir haglaskot 410 cal. til minkaveiða. Þessar byssur voru pantaðar af veiðistjóraembættinu og voru flestar ítalskar af gerðinni Serena. Þær eru þungar og hlaupstuttar og eru margar hverjar enn í notkun.

Sveinn ritaði fræðandi greinar og eru þær eftirtektaverðar enn í dag. Hann skrifaði í Handbók bænda í áraraðir. Þá vann hann að greinargerðum vegna útgáfu nýrra laga um eyðingu vargs og málum tengdum veiðistjórnun.

Veiðisafnið hefur í samvinnu við ættingja Sveins sett upp til sýningar byssur og persónulega muni frá Sveini honum til heiðurs.

Heimildir: Veiðisafnið.  Börn Sveins.  Aldnir hafa orðið- skráð 1984- Erlingur Davíðsson og  Handbók bænda. 

 


Flżtival