Sigmar Bent Hauksson
Formaður Skotvís

3.október 1950 – 24.desember 2012

 

Sigmar B Hauksson fæddist 3. október árið 1950, en hann lést í Reykjavík 24. desember  2012 eftir stutta og snarpa baráttu við veikindi, rúmlega 62 ára að aldri.

Sigmar fór snemma úr foreldrahúsum til sjómennsku, bæði á fiski- og farskipum í nokkur ár.  Sigmar fór síðan til náms til Svíþjóðar árið 1969, fyrst við lýðháskólann í Kungelve og síðan fjölmiðlunarnám í Gautaborg.

Sigmar var landsþekktur fyrir störf sín á fjölmiðlum.  Hann hóf störf við dagskrárgerð árið 1970 hjá Ríkisútvarpinu bæði hjá fréttastofu útvarpsins og einnig við þáttagerð m.a. stjórnaði hann um árabil morgunútvarpinu með Páli Heiðari Jónssyni.  Hann gerði bæði matreiðslu- og ferðaþætti í sjónvarpi, má þar nefna m.a. Eldhús sannleikans, Sjö borgir og Veisla í farangrinum sem nutu mikilla vinsælda.  Þá skrifaði hann reglulega pistla í tímaritið Skotvís og Morgunblaðið svo eitthvað sé nefnt.

Sigmar starfaði einnig við ferðamál, sem farastjóri og leiðsögumaður og síðari ár við ráðgjöf á sviði ferðamála og atvinnumála.  Síðast starfaði Sigmar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Sigmar lagði margt til skotveiða á Íslandi sem formaður Skotveiðifélags Íslands á árunum 1995-2011.  Hann var þar fremstur í flokki með að bæta ímynd skotveiðimanna, þar sem hann hvatti skotveiðimenn til þess að virða náttúruna í hvívetna, en náttúran var hans helsta hugðarefni og átti hún mjög stóran þátt í lífi hans.  Með ástríðu sinni á málefnum skotveiðimanna, efldi Sigmar alla umræðu um skotveiðar í íslenskri náttúru og eftir hann liggja mörg fróðleg erindi, bæði í fjölmiðlum og ekki síst í í tímaritinu Skotvís sem hann hann ritstýrði frá stofnun (1995).

Veiðar stundaði Sigmar bæði hér heima og erlendis, bæði skot- og stangaveiði var honum hugleikin og ekkert átti hug hans meira en að elda úr sinni bráð svo eftir var tekið.  Náttúruvernd og veiði fóru saman hjá honum eins og mörgum veiðimönnum sem taka veiðieðlið og umhugsun fyrir náttúrunni alla leið.

Sigmar var hugsjóna- og baráttumaður í þeim málefnum sem hann tók fyrir og öflugur málsvari þeirra í ræðu og riti.  Hann var sögumaður góður og átti létt með samskipti við fólk, sem kom sér vel við vinnu að framgangi málefna.

Skotveiðimenn á Íslandi samtímans fá seint þakkað Sigmari samvinnu hans við yfirvöld er kemur að skotveiðum hér heima, víðsýni hans og skilningur á málefnum skotveiðimanna fór kannski ekki eins hátt og við vitum almennt.  Er ljóst að Sigmar er meiri áhrifavaldur um framtíð skotveiða hér á landi en fram hefur komið.

Veiðisafnið hefur í samvinnu við ættingja Sigmars sett upp til sýningar byssu og persónulega muni frá Sigmari honum til heiðurs.
Heimildir:

Veiðisafnið
Jón Víðir Hauksson – Haukur  Bent Sigmarsson – Rúnar Bachmann
Skotvís
Skotveiðiblaðið 


Flżtival