Einar Þorgeir Húnfjörð Guðlaugsson
- Einar frá Þverá -

30.mars 1920 – 2.apríl 2008

 

Einar Þorgeir Húnfjörð Guðlaugsson fæddist að Þverá í Norðurárdal í Austur-Húnavatnssýslu 30. mars 1920. Hann lést af slysförum við veiðar ásamt veiðifélaga sínum Flosa Ólafssyni 2. apríl 2008, 88 ára að aldri.

Einar var án efa einn af afkastamestu minka og refaveiðimönnum á Íslandi í langan tíma og er hann einnig upphafsmaður refaveiða úr sérbyggðu skothúsi hér á landi þar sem veiðimaður beið yfir æti, en fyrsta húsið smíðaði hann sérstaklega til refaveiða um 1964, var það gert úr plastefni og þótti nýjung á þeim tíma. Fram að því var algengt að menn væru í hlöðnum skotbirgjum, í ýmsum útgáfum. Var hér um vetrarveiði að ræða.

Einar ásamt Sveini Einarssyni fyrrverandi veiðistjóra voru þeir fyrstu til að setja sjónauka á haglabyssur til refaveiða og vekur það eftirtekt að þeir eru að gera þetta á sama tíma og þetta kemur fyrst fram í USA. Áður höfðu þeir prófað sig áfram með lágspennt ljós, með misjöfnum árangri.

Landsþekkt er Zabala Magnum 10ga. haglabyssa Einars sem hann er með á myndinni er birtist af honum í bókinn Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur á bls.24 og er greinin sem fylgir skyldulesning fyrir alla er að tófuveiðum koma.

Tíminn segir sína sögu á langri ævi og sérstak var að heyra Einar segja frá því að eitt sinn var skinn af fallegum mórauðum ref virði á við þrjá gemlinga til útflutnings, og hver hefur heyrt um skyldudag, sem þá var og hét, í júnímánuði ár hvert, þar sem bændur voru skyldaðir til að skaffa menn til grenjaveiði.

Annað er upp á teningnum í dag og er líklegt að Einar hafi upplifað einhverjar mestu breytingar sem orðið hafa í nokkurri tegundaveiði á Íslandi.

Veiðisafni í samvinnu við ættingja Einars hafa sett upp til sýningar byssu og persónulega muni frá Einari honum til heiðurs.


P.R / Veiðisafnið

 


Flżtival